Innlent

Kvartað vegna lána

Hægt er að fá allt að 40 þúsund króna lán með því að skrá sig á netinu og senda SMS.
Hægt er að fá allt að 40 þúsund króna lán með því að skrá sig á netinu og senda SMS.

 Nokkrar kvartanir hafa borist Neytendasamtökunum vegna svokallaðra SMS-lána sem hafa verið að ryðja sér til rúms hér á landi. Samtökin vilja að gripið verði til aðgerða gegn slíkum lánum hér á landi til að koma í veg fyrir frekari framgang þeirra.

SMS-lánunum er einkum beint að ungu fólki. Fólk getur skráð sig á netinu og sent svo SMS-skeyti til að fá lán á bilinu 10 til 40 þúsund krónur. Greiða þarf lánin aftur innan fimmtán daga, og jafngilda vextirnir allt að 600 prósenta ársvöxtum, að því er fram kemur í bréfi Neytendasamtakanna til Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra.

„Neytendasamtökunum hafa þegar borist nokkrar kvartanir vegna þessara lána og innheimtu þeirra, en í öllum tilvikum hefur verið um að ræða lántaka sem af einhverjum ástæðum minna mega sín í samfélaginu,“ segir í bréfinu.

Þar er bent á að svipuð lánastarfsemi hafi verið harðlega gagnrýnd í nágrannalöndunum, enda sé þeim einkum beint að ungu fólki sem hafi lítið milli handanna, auk þess sem vextirnir geti vart kallast annað en okurvextir. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×