Viðskipti innlent

Líklegt að Síminn hafi brotið samkeppnislög

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Samkeppniseftirlitið kemst að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu að Síminn hafi líklegast brotið samkeppnislög. Mynd/ Stefán.
Samkeppniseftirlitið kemst að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu að Síminn hafi líklegast brotið samkeppnislög. Mynd/ Stefán.
Samkeppniseftirlitið telur sennilegt að Síminn hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína og þannig gerst brotlegt gagnvart samkeppnislögum. Þetta kemur fram í bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem birt var í dag.

Telur Samkeppniseftirlitið að sennilegt sé að Síminn hafi gripið til umfangsmikilla ólögmætra aðgerða í því skyni að ná mikilvægum viðskiptavinum frá símafyrirtækinu Nova með sértækum verðlækkunum og óeðlilegri notkun á trúnaðarupplýsingum um símnotkun viðskiptavina Nova. Hafi Síminn útbúið lista sem hefur að geyma sundurgreinanlegar upplýsingar um mörg þúsund viðskiptavina Nova. Umræddir listar geymi ekki aðeins upplýsingar um símanúmer og nöfn viðkomandi viðskiptavina Nova heldur jafnframt kennitölur, heimilsföng og í mörgum tilvikum starfsheiti þeirra. Auk þess komi fram upplýsingar um fjölda símtala hvers og eins, lengd þeirra í mínútum eða sekúndum og lengd meðalstímtals. Á grundvelli þessara upplýsinga hafi Síminn getað beitt sér gagnvart mikilvægum viðskiptavinum Nova.

Samkeppniseftirlitið getur tekið ákvörðun til bráðabirgða ef málið þolir ekki bið. Í slíkum ákvörðunum er ekki lagt endanlegt mat á hvort um ólögmætar aðgerðir sé að ræða. Málið er áfram til rannsóknar og verður tekin lokaákvörðun í því þegar rannsókninni lýkur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×