Viðskipti innlent

Ólíklegt að endurskoðun AGS fari fram á tilsettum tíma

Gylfi Magnússon
Gylfi Magnússon Mynd/Anton Brink
Hverfandi líkur eru á því að önnur endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fari fram á tilsettum tíma að mati efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann segir að erlendir fjárfestar haldi að sér höndum vegna þeirrar óvissu sem upp er komin hér á landi.

Til stóð að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tæki fyrir aðra endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands í loka janúarmánaðar.

Norðmenn hafa þegar lýst því yfir að þeir ætla ekki að afgreiða fyrirhuguð lán til Íslands fyrr en búið er að ganga frá Icesave málinu. Svíar hafa einnig tekið sama streng.

Án norrænu lánanna verður ekki hægt að ljúka endurskoðun efnahagsáætlunarinnar. Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að hverfandi líkur séu á því að endurskoðunin fari fram samkvæmt áætlun.

Gylfi segir að synjun forseta á Icesave lögunum hafi sent gríðarlega neikvæð skilaboð til útlanda. Erlendir fjárfestar sem hingað ætluðu að koma haldi nú að sér höndum.

„Meðal annars ýmsir sem sáu sér sóknarfæri á Íslandi í ljósi þess að gengið er orðið mun lægra en það var á árum áður. Það skapar ýmis tækifæri fyrir útflutning og reyndar einnig fyrir fyrirtæki sem keppa við innflutning. Ég er ansi hræddur um að allavega þeir sem ætluðu að koma með erlent fé inn í slíkar áætlanir hugsi sig um tvisvar og allavega bíði og vonandi hætti ekki við," segir Gylfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×