Viðskipti innlent

PwC bendir á ábyrgð bankanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
PricewaterhouseCoopers segir ábyrgð á uppgjörum Glitnis og Landsbankans hafa hvílt á stjórnendum bankanna. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá endurskoðendafyrirtækinu, en eins og fram kom í fréttum fyrir helgi segir í skýrslum norskra og franskra sérfræðinga að óeðlilega hafi verið staðið að reikningsskilum í ársskýrslum 2007 og árshlutareikningum 2008 hjá bönkunum. Eru endurskoðendur, sem voru á vegum PwC, sakaðir um vanrækslu.

„PwC minnir á að það eru stjórnendur bankanna, þ.m.t. stjórnir og bankaráð, sem bera ábyrgð á uppgjörum þeirra. Sú ábyrgð er bæði lagaleg og samfélagsleg. Stjórnendur leggja ársreikninga fram og gefa út viðamiklar skriflegar staðfestingar til enduskoðenda um réttmæti upplýsinga. Slíkar yfirlýsingar, ásamt öðrum endurskoðunargögnum, liggja fyrir í vinnuskjölum PwC og verða lagðar fram á réttum vettvangi," segir í yfirlýsingu frá Reyni Vigni, forstjóra PwC.

Hann segir í yfirlýsingunni að PwC telji sjálfsagt og eðlilegt að uppgjör bankanna, sem féllu haustið 2008, og endurskoðun á þeim komi til skoðunar eins og önnur atriði er tengist bankahruninu. Jafn sjálfsagt sé að öll málsmeðferð í því sambandi sé vönduð og hafin yfir vafa.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×