Viðskipti innlent

Kroppurinn vann dómsmál gegn Kaupþingi

Ástralska ofurfyrirsætan Elle Macpherson hefur unnið dómsmál gegn Singer & Friedlander dótturbanka Kaupþings á eyjunni Mön (KSFM). Talið er að dómurinn geti haft fordæmisgildi.

Fjallað er um málið á vefsíðu Financial News. Þar segir að þrotabú KFSM hafi neitað Elle um að nota persónulega inneign hennar í bankanum til að skuldajafna lán sem eitt af fyrirtækjum hennar hafði fengið hjá bankanum.

Skiptastjórar þrotabúsins héldu því fram að Elle gæti ekki skuldajafnað upphæðinni, sem fyrirsætan fékk fyrir sölu á íbúð sinni í London, þar sem inneignin væri á hennar eigin nafni en ekki fyrirtækis hennar.

Lögmenn Elle grófu hinsvegar upp 300 ára gamla lagagrein sem kveður á um slíka jöfnun og dómarinn tók þau rök til greina þar sem Elle og fyrirtækið væru í raun hið sama.

Elle segir að hún sé ákaflega ánægð með niðurstöðu dómsins. Elle Macpherson var nýlega kjörin þriðja fegursta kona heims af Celebrity Magazine. Hún hefur oft gengið undir viðurnefninu The Body eða Kroppurinn.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×