Viðskipti innlent

Viðskiptavinur VBS vill að eigendur verði dregnir til ábyrgðar

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Viðskiptavinur í eignastýringu hjá VBS sem tapaði stórum hluta sparifjár síns segist ekki hafa verið látinn vita að peningar hans væru notaðir til að kaupa skuldabréf sem gefin voru út á fasteignir sem aldrei risu. Hann er afar ósáttur og vill að stjórnendur bankans verði dregnir til ábyrgðar.

Ástæðu þess að VBS fjárfestingarbanki lenti í vandræðum má að stórum hluta rekja til þess að bankinn var með einsleita útlánastefnu og lánaði til áhættusamra fasteignaverkefna, þetta segja fulltrúar slitastjórnar bankans.

Einn milljarður króna er til skiptanna í þrotabúinu en kröfurnar hljóða upp á 48 milljarða. Meðal útlána bankans voru skuldabréf út á fasteignir sem aldrei risu.

Meðal þeirra verkefna sem VBS lánaði til var uppbygging í svokölluðu Laugardælalandi skammt frá Selfossi á vegum félaga í eigu athafnamannsins Engilberts Runólfssonar. Byggingarnar risu aldrei en viðskiptavinir í eignastýringu VBS voru látnir kaupa þessi skuldabréf.

„Ég var aldrei spurður að því nema það að manni var sagt að það væri farið út í þessi skuldabréfakaup og alltaf talað um að þetta yrði 100 prósent öruggt," sagði Nói Sigurðsson, viðskiptavinur bankans.

Nói segist hafa tapað stórum hluta sparifjár síns. Honum finnst ótrúlegt að lánað hafi verið út á hús sem aldrei risu.

„Það er með ólíkindum. Maður trúði þessu bara ekki þegar fréttirnir voru á þennan veginn hreint út sagt," segir Nói.

Nói er afar ósáttur og vill að stjórnendur bankans verði látnir sæta ábyrgð.

„Það á enga miskunn að að sýna og hefði átt vera búið að taka þessa karla fyrir löngu síðan. Það er mín skoðun," segir Nói að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×