Viðskipti innlent

Fólk leigir íbúðir frekar en að kaupa

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigurður H. Guðjónsson á von á því að húsaleigusamningum eigi eftir að fjölga enn frekar. Mynd/ Arnþór.
Sigurður H. Guðjónsson á von á því að húsaleigusamningum eigi eftir að fjölga enn frekar. Mynd/ Arnþór.
Fólk er farið að sækja meira í að leigja húsnæði en að kaupa það, segir Sigurður H. Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands varð töluverð fjölgun á þinglýstum leigusamningum milli mánaðanna maí og júní. Á landinu í heild fjölgaði þeim um 24%.

Húseigendafélagið sér í mörgum tilfellum um að gera húsaleigusamninga fyrir leigjendur og þar á bæ hafa menn tekið eftir því að leigumarkaðurinn hafi verið að lifna við. „Fólk er farið að sækja meira í leigu og hætt að miða á kaup. Það lítur á leigu sem valkost til lengri tíma," segir Sigurður. Hann telur jafnframt mögulegt að skólafólk utan að landi sé farið að huga að húsnæði með fyrra fallinu. Húsaleigusamningum fjölgi jafnan þegar skólarnir byrji.

Sigurður segir að fólk sé með bundnar hendur þegar komið að fasteignakaupum. „Það er bara ekkert svigrúm til kaupa. Það er ekkert að gerast og lánamálin eru erfið," segir Sigurður. Þetta snerti einkum þá sem eru að kaupa sér fyrsta húsnæði Sigurður segist vera sannfærður um að leigumarkaðurinn haldi áfram að stækka. Húsaleiga sé nú frekar hugsuð sem framtíðarráðstöfun en áður. Á síðustu 20 - 30 árum hafi orðið mikil réttarbót í tengslum við húsaleigu. Nú séu til húsaleigulög, húsaleigubætur og menn séu farnir að þinglýsa húsaleigusamningum. Þá hafi íbúðalánasjóður farið að lána til bygginga á húsnæði til leigu. „Það hefur smásaman verið að þróast stabíll leigumarkaður þannig að fólk getur valið það að leigja frekar en að kaupa," segir Sigurður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×