Viðskipti innlent

Bankarnir fá ókeypis ríkisábyrgð

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar
Bankarnir greiða ekkert fyrir ótakmarkaða ríkisábyrgð á innstæðum. Yrði slíkt gjald innheimt gæti það skilað milljörðum króna á ári í ríkiskassann.

Þegar ríkissjóður veitir ríkisábyrgð á lánum greiða þeir sem taka lánin þóknun fyrir ábyrgðina eða svokallað ábyrgðagjald. Gjaldið hefur verið 0,25 - 0,4 % af höfuðstól ábyrgðarskuldbindingar fyrir hvert ár lánstímans. Landsvirkjun greiðir t.a.m. árlega um 900 milljónir króna fyrir ríkisábyrgðina.

Í ríkisábyrgðum er ekki gert ráð fyrir innstæðum í íslenskum bönkum sem njóta ríkisábyrgðar samkvæmt yfirlýsingu núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnar. Sú ríkisábyrgð hefur þó aldrei verið lögfest.

Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, staðfesti í samtali við fréttastofu að ríkissjóður væri ekki að innheimta neitt ábyrgðagjald af bönkunum, til þess þyrfti lagasetningu.

Þetta þýðir að viðskiptabankarnir, sem eru að mestu í eigu erlendra kröfuhafa, hafa ekki greitt neina þóknun fyrir ríkisábyrgð á öllum innstæðum. Hefði íslenska ríkið innheimt ábyrgðagjaldið mætti gera ráð fyrir að um átta milljarðar íslenskra króna hefðu skilað sér í ríkissjóð á þeim tæpu tveimur árum sem ábyrgðin hefur verið í gildi, en innistæður landsmanna nema vel á annað þúsund milljarða króna.

Tryggingasjóður innstæðueigenda hefur þó innheimt gjald frá bönkunum til að tryggja innstæður að hámarki rúmra þriggja milljóna króna. Framlag bankanna á síðasta ári í sjóðinn nam um tveimur milljörðum króna. Það fé rennur ekki í ríkissjóð, heldur til tryggingar á innstæðum í gömlu bönkunum sem nú eru gjaldþrota.

Alþingi hefur ekki afgreitt frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra sem gerir ráð fyrir að auka það gjald sem bankarnir greiða í Tryggingasjóð. Samkvæmt því verða innstæður þá tryggðar að hámarki 8 milljóna króna.

Ekki náðist í Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, vegna málsins í dag.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×