Viðskipti innlent

HS Orka skilar 1,2 milljarða hagnaði

Hagnaður HS Orku á fyrsta ársfjórðungi ársins nam 1,2 milljörðum kr. en á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn 800 milljónum kr.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar segir að betri afkomu megi rekja að mestu til hækkana í afleiðusamingum um álverð, þ.e. framtíðarvirði álsölusamninga. Á móti kemur umtalsverð lækkun á gengishagnaður, gjöld í stað tekna vegna hlutdeildarfélaga og hækkun skatta.

Heildartekjur HS Orku jukust um 17% milli ára og námu 1,81 milljarði kr. á ársfjórðungnum.

„Þrátt fyrir áframhaldandi erfiða stöðu íslenska efnahagslífs hefur HS orku tekist að ná hagstæðri rekstrarafkomu á tímabilinu," segir Júlíus Jónsson forstjóri HS Orku í tilkynningunni. „Meginástæða bættrar rekstrarafkomu er hækkun álverðs og styrking dollarans gagnvart öðrum myntum."

Á tímabilinu batnaði eiginfjárhlutfall félagsins og nam 39,2% en það var 35,5% í ársbyrjun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×