Erlent

Tuttugu og tveir særðust í Istanbul

Heimir Már Pétursson skrifar
Sprengjan sprakk á Taksim torgi. Mynd/ afp.
Sprengjan sprakk á Taksim torgi. Mynd/ afp.
Tuttugu og tveir særðust í sjálfsmorðssprengjuárás í Istanbúl, í Tyrklandi, í morgun. Sprengjan sprakk skammt frá sveit óeirðalögreglumanna sem voru í viðbragðsstöðu vegna mótmælaaðgerða.

Lögreglustjórinn í Istanbúl segir að níu lögreglumenn og sex óbreyttir borgarar hafi slasast í sprengingunni, en tyrkneska fréttastofan Dogan segir að tuttugu og tveir hafi særst. Að minnsta kosti tveir þeirra eru sagðir mjög alvarlega særðir.

Sprengjan sprakk á Taksim torgi. Tilræðismaðurinn er sagður vera karlmaður en engar frekari upplýsingar eru um hann.

Herskáir Kúrdar og múslímar í landinu hafa gert fjölda sjálfsmorðssprengjuárásir áður, en enginn hefur lýst ábyrgð sinni á tilræðinu í morgun. Vopnahlé hefur ríkt milli stjórnvalda og Kúrda en það er við það að renna út.

Vitni segja særða og jafnvel látna hafa legið á víð á dreif á vettvangi. Götum í nágrenni staðarins hefur verið lokað.

Sérsveit lögreglumanna var saman kominn í borginni vegna boðaðra mótmæla. Lögreglustjórinn segir að talið sé að árásarmaðurinn hafi gert tilraun til að komast inn í rútu sérsveitarmanna og hafi ætlað að sprengja sig í loft upp þar, en sprengjan hafi sprungið áður.

Kúrdar hafa barist fyrir sjálfstæði sínu í suðausturhluta landsins og mætt harðri andspyrnu stjórnvalda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×