Viðskipti innlent

Óefnislegar eignir íslenskra fyrirtækja áttfölduðust

Óefnislegar eignir áttfölduðust að verðmæti í bókhaldi íslenskra fyrirtækja frá árunum 2003 til 2007. Þær námu samtals 40 milljörðum árið 2003 en voru orðnar 232 milljarðar árið 2007.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Til óefnislegra eigna teljast helst viðskiptavild og aflaheimildir.

Úr skýrslunni má lesa að aukningin undanfarin ár skýrist að stærstum hluta af verðmæti kvóta í bókum sjávarútvegsfyrirtækja annars vegar en viðskiptavild eignarhaldsfélaga hins vegar.

Óefnislegar eignir í sjávarútvegi voru 92 milljarðar króna árið 2007 og höfðu tvöfaldast úr 46 milljörðum árið 2005. Þar er um að ræða breytingar á verðmati kvótans, segir í skýrslunni. Bókfærðar óefnislegar eignir eignarhaldsfélaga eins og Baugs, Existu, Samsonar og FL Group höfðu tæplega fjórfaldast á sama tímabili, úr 22 milljörðum króna í 85 milljarða.

Bókfærð viðskiptavild kom fyrst fram sem umtalsverð stærð í bókum fjármálafyrirtækja árið 2005 þegar hún var 17 milljarðar og jókst í 25 milljarða árið 2007. Þróunin sést á myndum hér til hliðar. - pg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×