Viðskipti innlent

Íslandsbanki afskrifar 4 milljarða kúlulán starfsmanna

Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, segir að með þessu sé ekki verið að firra umrædda starfsmenn ábyrgð, enda hafi þeir aldrei neina persónulega ábyrgð borið.
Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, segir að með þessu sé ekki verið að firra umrædda starfsmenn ábyrgð, enda hafi þeir aldrei neina persónulega ábyrgð borið.
Kúlulán níu núverandi starfsmanna Íslandsbanka, uppá ríflega fjóra milljarða króna, verða afskrifuð. Starfsmennirnir fengu lánin hjá Glitni til hlutafjárkaupa í bankanum sjálfum í gegnum einkahlutafélög. Stjórn Íslandsbanka hefur óskað eftir því að starfsmennirnir gefi félög sín upp til gjaldþrotaskipta, segir í frétt RÚV.

Lánin voru veitt árið 2008 og voru hluti af svokölluðu tryggða- og hvatakerfi Glitnis, en þar voru einkahlutafélögum starfsmanna veitt kúlulán til að kaupa hlutabréf í bankanum, en áhættan var öll bankans. Íslandsbanki hefur lagt áherslu á að umræddir starfsmenn hafi ekki haft neinn fjárhagslegan ávinning af lánunum þar sem ekki hafi verið greiddur út arður til þeirra af hlutabréfunum.

„Þetta er auðvitað bara sú leið sem farin er allstaðar þar sem fólk skuldar bankanum, við fylgjum reglum bankans. Eini munurinn er sá að bankinn krefst þess að þessir starfsmenn geri sín félög gjaldþrota áður en til gjalddaga er komið. Það er gert vegna þess að það er alveg augljóst að bankinn fær ekkert af þessum peningum til baka," sagði Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka í fréttinni.

Hann segir að með þessu sé ekki verið að firra umrædda starfsmenn ábyrgð, enda hafi þeir aldrei neina persónulega ábyrgð borið. Reikna má með að fjöldi fyrrverandi starfsmanna Glitnis muni einnig fara sömu leið, en kúlulán bankans til einkahlutafélaga starfsmanna sinna nema tugum milljarða króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×