Viðskipti innlent

Áfengissalan jókst um 14,4% milli ára í mars

Sala áfengis jókst um 14,4% í mars miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og jókst um 35,8% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum nam aukning í veltu áfengis í mars 0,6% frá sama mánuði í fyrra. Verð á áfengi var 18,7% hærra í mars síðastliðnum en í sama mánuð í fyrra.

Þetta kemur fram í yfirliti frás Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar segir að velta í dagvöruverslun jókst um 8,3% á föstu verðlagi í mars miðað við sama mánuð í fyrra og jókst um 16,2% á breytilegu verðlagi. Leiðrétt fyrir árstíðabundnum þáttum nam aukning í veltu dagvöruverslana í mars 4,1% frá sama mánuði árið áður. Verð á dagvöru hækkaði um 7,2% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Fataverslun var 1,1% minni í mars miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi en jókst um 12,8% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á fötum var 14,1% hærra í mars síðastliðnum en í sama mánuði ári fyrr.

Velta skóverslunar minnkaði um 1,6% í mars á föstu verðlagi og minnakði um 21% á breytilegu verðlagi miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á skóm hækkaði í desember um 22,9% frá mars í fyrra.

Velta húsgagnaverslana var 0,1% minni í mars en í sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi en jókst um 13,6% á breytilegu verðlagi. Velta sérverslana með rúm jókst um 3% frá því í fyrra á föstu verðlagi. Verð á húsgögnum var 13,7% hærra í mars síðastliðnum miðaða við sama mánuð í fyrra.

Sala á raftækjum í mars jókst um 1,8% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra og um 14,9% á breytilegu verðlagi á sama tímabili. Verð á raftækjum hækkaði um 12,9% frá mars 2009.

Sú aukning sem varð í verslun með dagvöru og áfengi í mars miðað við sama mánuð í fyrra má að einhverju leyti rekja til þess að páskaverslun var í mars á þessu ári en í apríl í fyrra. Þó söluaukning hafi orðið á dagvöru frá síðasta ári var hún 4,7% minni en í mars 2007 og 6,5% minni en í mars 2008 þegar veltuvísitalan hefur verið leiðrétt fyrir árstíðarbundnum þáttum, eins og páskaversluninni. Þróunin undanfarna mánuði gefur vísbendingu um að botninum sé náð og neysla á mat og drykk farin að glæðast á ný.

Sala áfengislítra dróst saman um 1,34% á fyrstu þremur mánuðum þessa árs miðað við sömu mánuði í fyrra. Sala á léttum vínum í mars jókst 32,2% í lítrum talið miðað við mars í fyrra, sala á bjór í lítrum talið jókst á sama tíma um 19,11% en samdráttur varð í sölu á sterkum vínum um 0,84%. Þannig má ætla að vegna hækkunar áfengisgjalds að undanförnu hafi landsmenn fært neyslu úr sterkum drykkjum og yfir í bjór og léttvín.

Það sem af er þessu ári hefur verslun með föt og raftæki verið mjög sambærileg við það sem hún var á sama tímabili í fyrra að magni til. Húsgagnaverslun fer einnig að nálgast að vera sambærileg og var á sama tíma í fyrra þó hún sé 55% minni en fyrir tveimur árum síðan. Rannsóknasetur verslunarinnar mun framvegis reikna veltuvísitölu vegna sölu á rúmum, sem byggir á veltutölum frá nokkrum helstu rúmaverslunum landsins. Sú velta er hluti af veltuvísitölu húsgagnaverslana. Samkvæmt þeirri mælingu var velta rúmaverslana nákvæmlega sú sama í mars síðastliðnum miðað við mars í fyrra. Sala á rúmum hefur þróast nokkuð í takt við þróun veltu annarrar húsgagnaverslana í landinu undanfarið ár.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×