Innlent

Segir líf ríkisstjórnarinnar háð niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni Benediktsson segir líf ríkisstjórnarinnar háð niðurstöðunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Mynd/ AFP.
Bjarni Benediktsson segir líf ríkisstjórnarinnar háð niðurstöðunni í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Mynd/ AFP.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, telur að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave málið geti ráðið framtíð ríkisstjórnarinnar. „Að miklu leyti á þetta eftir að snúast um líf ríkisstjórnarinnar," segir Bjarni í samtali við Reuters fréttastofuna. „Ríkisstjórn sem getur ekki leyst þetta mál getur ekki haldið áfram störfum," segir Bjarni.

Reuters bendir hins vegar á að andstaðan við Icesave sé ekki bundin við stjórnarandstöðuna og fylgjendur stjórnarandstöðuflokkanna. Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, segir í samtali við Reuters að margir stuðningsmenn stjórnarinnar ættu eftir að greiða atkvæði gegn frumvarpinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni. „Það er augljóst að þótt þú kjósir gegn lögunum þá ertu ekki að kjósa gegn ríkisstjórninni," er haft eftir Ögmundi.

Bjarni segir við Reuters að hann sé handviss um að lögunum verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lögin séu svo svívirðilega óréttlát að Íslendingar geti ekki látið þau yfir sig ganga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×