Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri sendi samúðarkveðjur til Póllands

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sendi í dag bréf til Piotr Wiesioleks starfandi seðlabankastjóra Póllands með samúðarkveðjum vegna fráfalls Slawomirs Stanislaws Skrzypeks seðlabankastjóra Póllands í hinu hörmulega flugslysi í Rússlandi í dag.

Greint er frá þessu á heimasíðu Seðlabankans. Þar segir að í bréfinu komi fram að samvinna Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Póllands hefur aukist á undanförnum árum og persónuleg tengsl skapast meðal annars í stuttri heimsókn Slawomirs og konu hans til Íslands sumarið 2008.

Þá hafi Már kynnst Slawomir bæði í starfi fyrir Alþjóðagreiðslubankann í Sviss og enn nánar eftir að hann tók við embætti seðlabankastjóra á Íslandi.

Í lok bréfsins tók seðlabankastjóri fram að hann vonaðist til að hægt yrði að heiðra minningu Slawomirs með því að þróa áfram vinsamleg samskipti og samvinnu seðlabanka Íslands og Póllands.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×