Viðskipti innlent

Leiguverð í borginni hefur hækkað um allt að 17% frá áramótum

Samkvæmt nýrri könnun Neytendasamtakanna hefur leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað síðan í byrjun árs og nemur hækkunin allt að 17% fyrir stærstu íbúðirnar sem auglýstar eru til leigu.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þannig leiði könnun Neytendasamtakanna í ljós að fimm herbergja íbúðir voru í júlí auglýstar til leigu fyrir að meðaltali 1.253 kr á hvern fm. en í febrúar var meðalverð 1.066 kr. Samkvæmt þessu kostaði 170.000 krónur á mánuði að leigja 160 fm íbúð í febrúar en 200.000 krónur nú og nemur hækkunin sem fyrr segir 17%.

Þá hækkaði leiguverð á stúdíóíbúðum um 7% á sama tímabili, leiga á þriggja herbergja íbúðum um 4,5% og leiguverð á fjögurra herbergja íbúðum um 4%. Hinsvegar lækkaði leiguverð fyrir tveggja herbergja íbúðir á tímabilinu um 2%. Íbúðirnar sem könnunin tók til voru auglýstar til leigu hjá helstu leigumiðlunum landsins og voru allt íbúðir á frjálsum markaði. Neytendasamtökin hafa rannsakað leiguverð reglulega undanfarin tvö ár og leiguverðið nú er hærra en það var þegar fyrsta könnunin var gerð í apríl 2008.



Algengt er að leigusamningar séu vísitölutryggðir sem þýðir að leiguverðið þróast í takti við verðlag en frá áramótum talið hefur verðlag hækkað um 1,3% sem skýrir því aðeins hluta af þessari hækkun. Líklegra er að hér sé lögmál framboðs og eftirspurnar að verki en eins og kunnugt er hefur spurn eftir leiguhúsnæði margfaldast frá hruni.

Á fyrstu 6 mánuðum ársins voru gerðir 4.565 leigusamningar sem er fjölgun um 86% frá sama tímabili árið 2008 samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár Íslands. Sóknin í leiguhúsnæði var sérlega mikill á síðasta ári en hefur nú aðeins dregist saman á nýjan leik. Sóknin er þó enn mjög mikil en til að mynda voru í júní síðastliðnum alls 834 leigusamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst sem er tæplega 24% fleiri en í mánuðinum á undan og 3% fleiri en í sama mánuði 2009.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×