Viðskipti innlent

Kaupmáttaraukningin árin 2004 til 2008 er horfin

Sú kaupmáttaraukning sem varð meðal launþega á árunum 2004 til 2008 er horfin í kreppunni. Góðu fréttirnar eru að útlit er fyrir að kaupmátturinn sé að aukast að nýju, en að vísu hóflega.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að kaupmáttur launa minnkaði um 0,2% í ágúst frá fyrri mánuði, en undanfarna tólf mánuði hefur hann aukist um 1,4%.

Þetta er þriðji mánuðurinn í röð sem kaupmáttur launa hækkar miðað við tólf mánaða taktinn en þar á undan hafði hann lækkað linnulaust allt frá ársbyrjun 2008 vegna mikillar verðbólgu á sama tíma og lítil breyting var á launum. Hefur kaupmáttur launa nú rýrnað um 10,6% frá því að hann var hér mestur í janúar árið 2008 og er nú á svipuðum stað og hann var árið 2003.

Því lætur nærri að kreppan hafi þurrkað upp alla kaupmáttaraukninguna sem átti sér stað á tímabilinu 2004-2008. Jákvæðari þróun virðist nú vera hafin í innbyrðis þróun launa og verðlags og reikna má með því að kaupmáttur launa aukist hóflega á næstunni og þá einna helst vegna frekari hjöðnunar verðbólgunnar, að því er segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×