Viðskipti innlent

Herða á refsingar fyrir slæmt hátterni

Sumir stjórnarmenn eiga að búa yfir sérfræðiþekkingu á áhættutengdum þáttum í rekstri, að mati bresks sérfræðings.Fréttablaðið/GVA
Sumir stjórnarmenn eiga að búa yfir sérfræðiþekkingu á áhættutengdum þáttum í rekstri, að mati bresks sérfræðings.Fréttablaðið/GVA

Setja á stjórnum fyrirtækja strangar reglur og þeim verður að fylgja af hörku. Þetta segir Chris Pierce, forstjóri breska fyrirtækisins Global Governance Service. Hann var frummælandi á hádegisfundi í gær um stjórnar-hætti hjá fyrirtækjum á vegum Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins, Kauphallarinnar og Rannsóknamiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands.

Pierce benti á að tekið hafi verið af hörku á svokölluðum hvítflibba-glæpum upp á síðkastið; hinn bandaríski Bernard Maddoff var fyrir tæpu ári dæmdur í 150 ára fangelsi fyrir umfangsmikil og gróf fjármálasvik og Huang Guangyu, ríkasti maður Kína í hittiðfyrra, hlaut fjórtán ára dóm fyrir mútur og innherjasvik í síðustu viku.

Pierce sagði mikilvægt að stjórnarformaður fyrirtækis helgi sig stjórnarstarfinu og því geti hann ekki setið í mörgum stjórnum á sama tíma. Til viðbótar eigi að kalla til óháða eftirlitsaðila sem auga hafi með stjórnum fyrirtækja. Við það ættu stjórnarhættir að batna, að hans mati.

Pierce hefur unnið að málum sem þessu tengjast í Portúgal, Grikklandi og Spáni, löndum sem öll standa á haus í fjármálakreppunni. Hann sagði stöðu stjórnarhátta bágborna innan ESB-ríkjanna og vitnaði til þess að aðeins tæp fimmtán prósent fyrirtækja á Spáni birti nöfn stjórnarmanna í ársuppgjöri. „Þetta er hræðilegt,“ sagði hann .

Brasilíumenn eru langt komnir í stuðningi við góða stjórnarhætti, hafa sett á laggirnar nýjan hlutabréfamarkað eingöngu fyrir fyrirtæki sem tekið hafi upp viðurkennda og góða stjórnarhætti. „Það er gríðarlegur munur á fyrirtækjum sem ástunda góða starfshætti og hinum sem ekki gera það,“ sagði Pierce og benti á að gengi hlutabréfa í fyrrnefndu fyrirtækjunum væri tugum prósentum hærra en hinna. jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×