Viðskipti innlent

Verðmæti álútflutnings jókst um 41,5% milli ára

Sé leiðrétt fyrir gengisbreytingum jókst verðmæti álútflutnings um 41,5% í apríl á föstu gengi miðað við sama tíma í fyrra og má þakka það verulegri verðhækkun á áli á tímabilinu. Útflutningsverðmæti sjávarafurða var rúm 17,1 milljarða kr. í mánuðinum og jókst um 9,3% frá sama tíma 2009.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um vöruskiptin í apríl. Þar segir að alls voru fluttar út vörur fyrir 40,8 milljarða kr. í apríl, sem er nokkuð meiri útflutningur en á sama tíma í fyrra, eða sem nemur um 23,1% á föstu gengi. Þessi aukning skýrist einna helst af auknum tekjum af útfluttum iðnaðarvörum og nam útflutningsverðmæti þeirra ríflega 21,6 milljarða kr. í mánuðinum en á sama tíma í fyrra var það 14,6 milljarðar kr.

Vöruinnflutningur var 34,5 milljarða kr. í apríl og að teknu tilliti til gengisbreytinga var hann 7,6% meiri en í sama mánuði í fyrra. Skýring þessarar aukningar liggur að hluta til í að meira er flutt inn af fjárfestingarvörum, hrá- og rekstrarvörum og svo flutningatækjum en samanlagt var aukning þessara liða um 47,8% á föstu gengi.

Aðrir liðir drógust saman milli ára. Sé leiðrétt fyrir gengisbreytingum var um 6,6% minna flutt inn af mat- og drykkjarvörum og 2,5% minna af neysluvörum (t.d. heimilistækjum og fatnaði).

Afgangur vöruskipta á fyrstu fjórum mánuðum ársins er um 37,6 milljörðum kr. samanlagt sem er mun meiri afgangur en á sama tímabili í fyrra þegar hann var 27,5 milljarðar kr. Jafngildir þetta aukningu upp á 21,3% á föstu gengi.

Ljóst er að mikill viðsnúningur hefur verið á vöruskiptum við útlönd frá því að fjármála- og gjaldeyriskreppan skall á hér á landi um haustið 2008. Hefur nú afgangur verið á vöruskiptum við útlönd í hverjum mánuði allt frá því í september 2008 en fyrir þann tíma hafði vöruskiptahalli nánast verið reglan undanfarin 5 ár eða svo, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×