Viðskipti innlent

Rekstur Árborgar skilaði 449 milljóna tapi í fyrra

Rekstur sveitarfélagsins Árborgar, A og B hluti, skilaði tapi upp á 449 milljónir kr. á síðasta ári. Er það nokkuð minna tap en áætlun fyrir árið gerði ráð fyrir.

Í tilkynningu um ársuppgjörið til Kauphallarinnar segir að heildartekjur eru 4.379 milljónir kr. og heildarútgjöld með afskriftum en án fjármagnsliða 4.018 milljónir kr. Að öllu samanlögðu nema heildarútgjöld með afskriftum án fjármagnsliða 91,76% af heildartekjum A og B hluta ársreikningsins.

Fræðslu- og uppeldismál eru umfangsmesti málaflokkurinn í rekstri sveitarfélagsins, tekur til sín 2.077 milljónir kr. Sveitarfélagið Árborg er mjög stór vinnuveitandi, greiðir um 2.267 milljónir kr. í laun og launatengd gjöld.

Handbært fé frá rekstri er 538 milljónir kr., afborganir lána eru 733 milljónir kr. og nettó fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum er 871 milljónir kr. Tekin voru ný lán á árinu alls 400 milljónir kr.

Reikningurinn sýnir jákvæð frávik miðað við fjárhagsáætlun ársins 2009 sem nemur 65.6 milljónum kr. Endurskoðuð fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir tapi að fjárhæð 514,7 milljónir kr. en upphafleg áætlun ársins sem gerð var í desember 2008 gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu sem nemur 489,6 milljónir kr.

Skatttekjur eru 145 milljónum kr. hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir, tekjur frá Jöfnunarsjóði 28 milljónir kr. yfir áætlun og aðrar tekjur 133,6 milljónir kr. undir áætlun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×