Viðskipti innlent

Tekjur ríkissjóðs minnka en gjöldin aukast um milljarða

Greidd gjöld nema 87,4 milljörðum kr. og jukust um tæpa 7 milljarða kr. frá fyrra ári, eða um 8,7%.
Greidd gjöld nema 87,4 milljörðum kr. og jukust um tæpa 7 milljarða kr. frá fyrra ári, eða um 8,7%.
Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrstu tvo mánuði ársins 2010 liggur nú fyrir. Samkvæmt uppgjörinu var handbært fé frá rekstri jákvætt um 3,4 milljarða kr., sem er 8,6 milljörðum kr. lakari útkoma heldur en árið 2009. Tekjur reyndust 9,6 milljörðum kr. minni en í fyrra á meðan gjöldin jukust um tæpa 7 milljarða kr.

Þetta kemur fram á vefsíðu stjórnarráðsins. Þar segir að innheimtar tekjur ríkissjóðs í febrúar námu 53,4 milljörðum kr. samkvæmt þessu bráðabirgðauppgjöri, og á fyrstu tveimur mánuðum ársins samtals 81,0 milljarð kr. Tekjuáætlun fjárlaga er sett fram á ársgrunni og einnig er áætlað hvernig tekjurnar dreifast eftir mánuðum. Áætlunin fyrir fyrstu tvo mánuðina er upp á 81,6 milljarða kr. og er frávikið því neikvætt um 0,6 miljarð kr. eða sem nemur 0,8% af áætlun.

Greidd gjöld nema 87,4 milljörðum kr. og jukust um tæpa 7 milljarða kr. frá fyrra ári, eða um 8,7%. Milli ára aukast vaxtagjöld ríkissjóðs um 7,1 milljarð kr. Útgjöld til menntamála aukast um 1,1 milljarð kr. þar sem útgjöld til Lánasjóðs íslenskra námsmanna aukast um 1,5 milljarð kr. milli ára.

Útgjöld til löggæslu, réttargæslu og öryggismála aukast um 601 milljónir króna milli ára þar sem fjárfesting Landhelgissjóðs í varðskipi skýrir hækkunina að langstærstu leyti. Útgjöld til efnahags- og atvinnumála dragast saman um 1,6 milljarð kr. milli ára þar sem Framkvæmdir Vegagerðarinnar og Fjarskiptasjóður skýra 1,4 milljarð kr. Breytingar í öðrum málaflokkum eru minni en þær sem áður hafa verið taldar.

Hreinn lánsfjárjöfnuður er því sem næst í jafnvægi og minnkar um tæpa 9,8 milljarða kr. frá fyrra ári sem skýrist að mestu leyti með samdrætti í handbæru fé. Afborganir af lánum ríkissjóðs námu 3,1 milljarði kr. og voru þær vegna innlendra skulda. Heildarlánsfjárþörf ríkissjóðs var þannig rúmur 3,1 milljarð kr.

Innlendar lántökur námu 28,5 milljarða kr. Ríkisbréf voru seld fyrir 33,1 miljarða kr. en á móti lækkaði stofn ríkisvíxla um 4,6 milljarð kr. Ríkissjóður bætti þannig greiðslustöðu sína í Seðlabankanum um 24 milljarða kr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×