Viðskipti innlent

Már myndi ekki taka við 400 þúsund króna launahækkun

Sigríður Mogensen skrifar
Már Guðmundsson segir að málið snúist um hversu mikið laun hans lækki. Mynd/ Stefán.
Már Guðmundsson segir að málið snúist um hversu mikið laun hans lækki. Mynd/ Stefán.
Forsætisráðherra segir að engin fyrirheit hafi verið gefin um launakjör Seðlabankastjóra. Forseti ASÍ segir að tillaga um fjögur hundruð þúsund króna launahækkun bankastjórans sé ekki í samræmi við neitt sem þjóðin sé að glíma við. Seðlabankastjórinn segist sjálfur aldrei myndu taka við slíkri launahækkun.

Morgunblaðið sagði frá því í dag að bankaráð Seðlabankans hafi til umfjöllunar tillögu um að hækka laun seðlabankastjóra um 400 þúsund krónur á mánuði. Eftir því sem fréttastofa kemst næst fengi Már þannig um 1,3 milljónir króna án hækkunar en laun hans verða 1,7 milljónir nái tillagan fram að ganga.

„Ég verð nú að viðurkenna að þetta kom mér fyrst og fremst í opna skjöldu að þetta væri til umræðu og ekki í neinu samræmi við það vandamál sem þjóðin er að glíma við að fara að brydda upp á svona gríðarlegum hækkunum hjá fólki sem er þegar á mjög háu kaupi," segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Gylfi segist vona að bankaráð Seðlabankans leggi tillöguna til hliðar. Hún sé ekki gott innlegg í það sem þjóðin er að glíma við.

Forsætisráðherra segist ekki hafa gefið nein loforð eða fyrirheit um væntanleg launakjör Seðlabankastjóra, enda slíkt ekki á hennar færi. Að mati Jóhönnu gengur ekki við núverandi aðstæður að laun Seðlabankastjóra eða annarra forstöðumanna opinberra stofnanna séu úr takti við það sem þegar hefur verið ákveðið.

Már Guðmundsson segir að sér finnist þessi umræða skrítin. „Ég hef ekki frétt af því að þetta væri í farvatninu, enda myndi ég ekki taka á móti henni ef hún byðist," segir Már. Már segir að málið snúist um það að ef ákvörðun kjararáðs standi óbreytt lækki laun hans um 24%. Bankaráð hafi nú til skoðunar önnur fjárhagsleg mál og kjaramál seðlabankastjóra. Frá sínum sjónarhóli snúist þetta um hversu langt launin lækka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×