Viðskipti innlent

Aðeins dregur úr verðbólgunni

Verðbólgan hér á landi var 11,1% í apríl samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs sem hagstofa Evrópusambandsins (e. Eurostat) birti nú í morgun. Lækkar verðbólgan milli mánaða en hún var 11,6% hér á landi í mars á kvarða samræmdrar vísitölu.

Greint er frá þessu í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að verðbólgan hafi á þennan mælikvarða hjaðnað umtalsvert síðasta árið en í apríl í fyrra mældist hún 16,3%. Meginástæða lækkunarinnar er sú að áhrif gengislækkunar krónunnar sem varð í aðdraganda og samhliða hruni bankakerfisins hér á landi á árinu 2008 eru nú nær horfin.



Þó svo að verðbólgan hafi verið á hjaðna hér á landi er hún enn sú mesta sem sést innan ríkja Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Það land sem kemst næst Íslandi er Ungverjaland en þar var verðbólgan núna í apríl 5,7%. Næst á eftir kemur Grikkland með 4,7% verðbólgu en þar í landi hefur verðbólgan verið að færast í aukanna líkt og víðast hvar í ríkjum Evrópu.

Þannig var verðbólgan nú í apríl að meðaltali 2% í ríkjum innan EES en í september síðastliðnum mældist hún 0,3% en þá voru mörg ríki, þá sérstaklega ríki innan evrusvæðisins, að upplifa ástand verðhjöðnunar. Aðeins tvö ríki upplifðu slíkt ástand nú í apríl og er það annars vegar Írland þar sem samræmd vísitala neysluverðs hefur lækkað um 2,5% yfir síðustu tólf mánuði og hins vegar Lettland en þar nemur lækkunin 2,8%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×