Innlent

Helgi Hjörvar: Höfum ekki náð lokapunkti í að leysa skuldamálin

Allt bendir til að margir lántakendur sem tóku erlend myntkörfulán sjái fram á lækkun á höfuðstól á næstunni. Hins vegar eru 75-80% lántakenda bankanna með venjuleg verðtryggð lán. En er von á lausn fyrir þann hóp?

Helgi Hjörvar, formaður efnahags og skattanefndar, hefur talað fyrir almennum skuldaleiðréttingum. Hann telur að sú umræða muni þyngjast enn frekar nú eftir dóm Hæstaréttar.

„Ég held að því miður höfum við ekki ennþá náð lokapunkti í því að leysa úr þessum erfiðu skuldamálum heimilanna og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að ná punkti þar sem er nokkuð almenn samstaða um að lengra verði ekki gengið og við verðum að ná því í framhaldi af myntkörfudómi Hæstaréttar sem auðvitað hefur breytt öllum forsendum mjög verulega," segir Helgi.

Hann segir að dómur Hæstaréttar hafi ekki gert annað en að draga úr þeim vanda einstaklinga sem við er að fást. Óvissan sé þó vissulega óþægileg. Hann gerir ráð fyrir viðbrögðum frá fjármálafyrirtækjunum á föstudaginn. „Ég bind vonir við að bankarnir geti kynnt ásættanlega meðferð á þessum málum. Þangað til að fleiri prófmál falla í Hæstarétti." Þá segir Helgi að það muni taka einhverja mánuði að fá skorið úr ýmsum spurningum sem ósvarað sé eftir dóm Hæstaréttar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×