Viðskipti innlent

FME: Athæfi starfsmanna NBI í ósamræmi við lög

Fjármálaeftirlitið (FME) telur að athæfi starfsmanna Landsbankans (NBI) í undanfara stjórnarkjörs í Íslenska lífeyrissjóðnum s.l. haust sé ekki í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti í skilningi laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

 

Þetta kemur fram á vefsíðu FME en þann 23. október sl. var framkvæmd vettvangskönnun í tengslum við stjórnarkjör Íslenska lífeyrissjóðsins vegna kosningar stjórnar hans á aukaársfundi 19. október 2009.

Athugunin beindist sérstaklega að umboðssöfnun starfsmanna Landsbankans á atkvæðum annarra starfsmanna bankans sem jafnframt eru sjóðfélagar Íslenska lífeyrissjóðsins.

 

„Í þessu sambandi verður að hafa í huga þau sérstöku tengsl sem eru á milli Íslenska lífeyrissjóðsins og Landsbankans, sem byggja á rekstrarsamningi þessara aðila frá árinu 2007. Sá samningur kveður á um að Landsbankinn annist allan daglegan rekstur sjóðsins. Þá skipar Landsbankinn framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins á grundvelli ofangreinds rekstrarsamnings og er framkvæmdastjórinn launaður starfsmaður Landsbankans, en ekki lífeyrissjóðsins sjálfs," segir í úttekt FME.

 

„Fjármálaeftirlitið sendi regluverði NBI hf. og Íslenska lífeyrissjóðnum bréf um niðurstöðu könnunarinnar og kallaði eftir sjónarmiðum þeirra og veitti tækifæri til andmæla vegna hennar. Svarbréf lífeyrissjóðsins barst 29. mars sl.

 

Niðurstaða könnunar Fjármálaeftirlitsins leiddi í ljós að þeir aðilar sem áttu þátt í að safna umboðum eru starfsmenn bankans og að þeir höfðu notfært sér aðgang, í gegnum netföng bankans, að fjölda sjóðfélaga sem aðrir frambjóðendur höfðu ekki.

 

Fjármálaeftirlitið dregur í efa að um sjóðfélagalýðræði sé í raun að ræða þegar aðilum í framboði er mismunað á þennan hátt. Fjármálaeftirlitið gerði lífeyrissjóðnum grein fyrir að það telur að ofangreint athæfi starfsmanna bankans sé ekki í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti í skilningi laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

 

Einnig telur Fjármálaeftirlitið að stjórnarmenn Íslenska lífeyrissjóðsins sem jafnframt eru starfsmenn Landsbankans kunni að vera vanhæfir til ákvarðana sem varða Landsbankann, bæði í fjárfestingum og einnig sem rekstraraðila sjóðsins. Við slíkar aðstæður er ofangreindum stjórnarmönnum óheimilt að taka þátt í undirbúningi, meðferð eða úrlausn þeirra mála samanber stjórnsýslulög.

 

Fjármálaeftirlitið telur það óæskilegt að meirihluti stjórnar lífeyrissjóðs geti orðið vanhæfur til meðferðar einstakra mála, sem ætla má að þurfi oft að koma til ákvörðunar stjórnarinnar. Fjármálaeftirlitið mæltist til þess að stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins beitti sér fyrir því að ofangreint verklag við umboðssöfnun til að velja stjórnarmenn „vinveitta" bankanum yrði ekki viðhaft aftur.

 

Þess má geta að í svari stjórnar lífeyrissjóðsins til Fjármálaeftirlitsins kom m.a. fram að stjórnin telur sér ekki heimilt að gefa út leiðbeiningar um það hverjir geti boðið sig fram til stjórnar eða komið í veg fyrir atkvæðasöfnun í aðdraganda kosninga. Þá séu framboð til stjórnar lífeyrissjóðsins frjáls og það sé ekki stjórnar sjóðsins að setja skorður við því hvernig menn kynna framboð sín. Sjóðurinn muni því ekki beita sér fyrir breyttu verklagi á meðan lög og samþykktir sjóðsins eru óbreytt.

 

Fjármálaeftirlitið ítrekar í því sambandi að það telur að ofangreint athæfi starfsmanna bankans sé ekki í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti í skilningi laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×