Viðskipti innlent

Skattar hækka verðtryggð lán heimila um 15,6 milljarða

Verðtryggð lán íslenskra heimila hafa hækkað um 15,6 milljarða kr. frá því í febrúar á síðasta ári vegna skattahækkana og annarra aukinna álagna af hálfu ríkisins sem hafa áhrif á vísitölu neysluverðs.

Þetta kemur fram í svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur þingmanns Hreyfingarinnar á Alþingi um verðtryggð lán íslenskra heimila og fyrirtækja.

Margrét spurði hve mikið hafa verðtryggð lán íslenskra heimila hækkað síðan 1. febrúar 2009, í krónum annars vegar og prósentum hins vegar, vegna skattahækkana og annarra aukinna álagna af hálfu ríkisins sem hafa áhrif á vísitölu neysluverðs?

Í svarinu segir að áhrif skattahækkana á vísitölu neysluverðs eru um 1,26% frá febrúar 2009 til október 2010 samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands. Það þýðir að verðtryggð lán íslenskra heimila hækkuðu sem því nemur. Samkvæmt skýrslu sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna voru verðtryggð fasteignalán heimilanna um 1.236 milljarðar kr. 1. október 2010 og því nemur hækkunin um 15,6 milljörðum kr. á tímabilinu.

Almenn vörugjöld eru ekki meðtalin þar sem Hagstofan greinir áhrif þeirra ekki með beinum hætti í vísitölunni.

Þá spurði Margrét hve mikið hafa verðtryggð lán íslenskra fyrirtækja hækkað síðan 1. febrúar 2009, í krónum annars vegar og prósentum hins vegar, vegna skattahækkana og annarra aukinna álagna af hálfu ríkisins sem hafa áhrif á vísitölu neysluverðs?

Í svarinu segir að áhrif skattahækkana á vísitölu neysluverðs eru um 1,26% frá febrúar 2009 til október 2010 samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands. Það þýðir að verðtryggð lán fyrirtækja hækkuðu sem því nemur. Samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands voru verðtryggð lán fyrirtækja og eignarhaldsfélaga um 205 milljarðar kr. í lok september 2010 og því nemur hækkunin um 2,6 milljörðum kr. á tímabilinu.

Almenn vörugjöld eru ekki meðtalin þar sem Hagstofan greinir þau ekki með beinum hætti í vísitölunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×