Viðskipti innlent

Stýrivextir líklega aftur lækkaðir í lok júní

Greining Íslandsbanka telur að peningastefnunefnd Seðlabankans muni lækka stýrivexti sín í lok júní um a.m.k. sömu prósentu og raunin varð í þessum mánuði. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar þar sem fjallað er um fundagerð nefndarinnar.

Í Morgunkorninu segir að af lestri fundargerðarinnar og þróun undanfarinna vikna má ráða að miklar líkur séu á að minnsta kosti jafn stóru vaxtalækkunarskrefi á næsta vaxtaákvörðunardegi Seðlabankans þann 23. júní næstkomandi og raunin hefur verið undanfarið.

Þannig voru nefndarmenn á einu máli um að ef gengi krónunnar héldist stöðugt eða styrktist, og verðbólga hjaðnaði í takti við spár, ættu forsendur fyrir því að draga smám saman úr peningalegu aðhaldi að vera áfram til staðar. Frá síðasta vaxtaákvörðunardegi hefur krónan styrkst um ríflega 3,6% gagnvart helstu viðskiptamyntum og frá áramótum nemur styrkingin rúmum 6%.

Áhrif þessa eru þegar tekin að koma fram í lækkun þeirrar innfluttu neysluvöru sem styst stoppar við í verslunum, s.s. matvöru. Þá eru tíðindi gærdagsins af samningi Seðlabankans og ríkissjóðs við Seðlabanka Lúxembúrgar jákvæð fyrir framgang efnahagsáætlunar AGS og stjórnvalda, þótt þau skipti ekki sköpum fyrir afléttingu gjaldeyrishafta eða vaxtalækkunartaktinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×