Innlent

Ísland standi við lágmarkstryggingu

Forseti Eftirlitsstofnunar EFTA segir stofnunina ekki hafa neina skoðun á lánakjörum Breta og Hollendinga vegna Icesave samninganna við Íslendinga. Hins vegar telji stofnunin ótvírætt á Íslendingar eigi að greiða sem svarar til um 21 þúsund evrum á hvern Icesave reikning.

Ráðherrafundur EFTA ríkjanna fór fram í Reykjavík í gær og kom Per Sanderud forseti Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, hingað til lands í tengslum við fundinn. Eftirlitsstofnunin úrskurðaði í maí að Íslendingar hefðu gerst brotlegir við tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar, þar sem ekki hefði verið staðið við að greiða 21 þúsund evrur á hvern Icesavereikning. Íslendingar hefðu í þrígang fengið frest til að standa við skuldbindingarnar og síðasti fresturinn rann út í október 2009. Ekki er hægt að veita frekari fresti. Sanderud segir eftirlitsstofnunina ekki hafa neina skoðun á því hvort Íslendingar taki lán fyrir skuldbindingunum og á hvaða kjörum.

„Það er ljóst að allt veltur á því hvort Íslendingar endurgreiði þessar

20.000 evrur á hvern innlánsreikning. Fari svo erum við reiðubúin

að láta málið niður falla," segir Per Sanderud, forseti ESA.

Íslensk stjórnvöld hafa frest til 26. júli að svara áliti ESA. Ef þau fallast ekki á álit stofnunarinnar verður málið sent til EFTA dómstólsins til úrskurðar, en hvaða þýðingu hefur það?

„Fari þetta fyrir dómstólinn mun hann staðfesta að Íslendingum beri að borga þessar 20.000 evrur og dómstóllinn mun fylgja því eftir" segir Sanderud.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×