Viðskipti innlent

Ársæll segir hollenska ríkið hafa viljað sig áfram í skilanefnd

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ársæll Hafsteinsson er meðal háttsettustu starfsmanna skilanefndar Landsbankans. Hann var áður yfirmaður lögfræðisviðs bankans og þar á undan yfirmaður lögfræðisviðs Búnaðarbankans.
Ársæll Hafsteinsson er meðal háttsettustu starfsmanna skilanefndar Landsbankans. Hann var áður yfirmaður lögfræðisviðs bankans og þar á undan yfirmaður lögfræðisviðs Búnaðarbankans. Mynd/Fréttir Stöðvar 2

Ársæll Hafsteinsson einn yfirmanna skilanefndar Landsbankans var áður yfir útlánaeftirliti Landsbankans og dregur nú fyrrverandi yfirmenn sína til ábyrgðar vegna umdeildra útlána. Fjármálaeftirlitið vísaði honum úr skilanefnd en hann var ráðinn strax aftur sem starfsmaður.

Ársæll Hafsteinsson meðal háttsettustu manna hjá Landsbankanum fyrir hrun og var yfirmaður lögfræðisviðs. Eftir hrun settist Ársæll í skilanefnd Landsbankans, var vikið þaðan að kröfu Fjármálaeftirlitsins, en var þá ráðinn aftur sem starfsmaður nefndarinnar.

Ársæll var meðal þeirra starfsmanna sem réðu sig yfir til Landsbankans eftir að Björgólfsfeðgar eignuðust bankann árið 2003 og margir færustu starfsmanna Búnaðarbankans fylgdu Sigurjóni Þ. Árnasyni yfir í Landsbankann.

Veittu upplýsingar um skuldastöðu Norðurljósa til þriðja aðila

Hjá Búnaðarbankanum hafði Ársæll komist í hann krappann því hann, sem yfirmaður lögfræðisviðs Búnaðarbankans og Árni Tómasson, þáverandi bankastjóri, voru sakaðir um að veita upplýsingar um skuldastöðu Norðurljósa við bankann til þriðja aðila. Hart var tekist á um þetta í fjölmiðlum á sínum tíma og þetta varð tilefni úrskurðar frá Fjármálaeftirlitinu sem taldi að Búnaðarbankinn hefði gerst brotlegur við lög og að starfsmenn bankans hefðu stundað óeðlilega viðskiptahætti.

Sem kunnugt er hafa skilanefnd og slitastjórn Landsbankans krafið fyrrverandi bankastjóra bankans þá Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason um 37 milljarða króna. Önnur krafan er upp á 18 milljarða króna vegna láns sem bankinn veitti Straumi hinn 2. október 2008, aðeins örfáum dögum fyrir hrun.

Ársæll sagði í samtali við fréttastofu að ákvarðanir um að krefja bankastjórana fyrrverandi um þessar fjárhæðir hefðu verið teknar af skilanefnd og slitastjórn og þær yrðu að svara fyrir þær og sagðist ekkert hafa komið nálægt málinu. Hann sagðist ekki hafa verið, sem yfirmaður lögfræðisviðs og útlánaeftirlits Landsbankans, í stöðu til að stöðva einstakar lánveitingar. Þá sagði hann tengsl sín við Björgólf Guðmundsson engin. Ársæll sagði jafnframt að kröfuhafar Landsbankans hefðu lagt á það áherslu að hann yrði áfram við störf hjá skilanefndinni og nefndi þar til sögunnar breska og hollenska ríkið sem eru stórir kröfuhafar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×