Viðskipti innlent

Hagnaður Landsbankans í fyrra nam 14 milljörðum króna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Landsbankinn hagnaðist um rúma 14,3 milljarða króna fyrir árið 2009, fyrsta heila starfsár bankans. Arðsemi eiginfjár var 10% sem er nokkuð lægra en sá fjármagnskostnaður sem ríkið ber af hlutafjárframlagi sínu til bankans. Á sama tíma mældist ársverðbólga 8,63%. Í fréttatilkynningu frá bankanum segir að enginn raunhæfur samanburður sé til frá fyrri árum þar sem þetta sé fyrsta heila starfsár bankans.

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að meginþungi starfsemi bankans á árinu 2009 hafi falist annarsvegar í undirbúningi vegna endurskipulagningar skulda viðskiptavina, bæði einstaklinga og fyrirtækja og hinsvegar í samningagerð vegna uppgjörs við Landsbanka Íslands hf.

Sá samningur hafi verið undirritaður í desember og með honum hafi rekstur bankans komist á traustari grunn en verið hafði fram að því. Í þeim samningi fólst að Landsbankinn (NBI hf.) gæfi út skuldabréf til Landsbanka Íslands hf. í erlendum gjaldmiðlum til 10 ára sem skipta mun miklu varðandi endurreisn íslensks efnahagslífs, einkum þó hvað varði þjónustu bankans við útflutningsfyrirtæki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×