Viðskipti innlent

Segja engar eigur á Tortola

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgólfur Guðmundsson var aðaleigandi Samsonar ásamt Björgólfi Thor syni hans. Mynd/ Valgarður.
Björgólfur Guðmundsson var aðaleigandi Samsonar ásamt Björgólfi Thor syni hans. Mynd/ Valgarður.
Björgólfsfeðgar hafna því alfarið að óreiða hafi verið í bókhaldi eignarhaldsfélagsins Samsonar og að einstök viðskipti þess við önnur félög í eigu sömu eigenda hafi verið óeðlileg. Eignarhaldsfélagið Samson var stærsti eigandi Landsbankans.

Þeir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor sonur hans segja að starfsmenn Samsonar hafi veitt skiptastjóra upplýsingar og skýringar á öllum umræddum viðskiptum sem hafi verið til umræðu í fjölmiðlum að undanförnu. Um sé að ræða ýmist fjárfestingar eða viðskiptalán til félaga í eigu sömu eigenda vegna nýrra fjárfestinga sem í flestum tilfella hafi verið í íslenskum félögum. Það sé því alrangt að nokkrir fjármunir hafi verið fluttir eða runnið til Tortola eða annarra aflandseyja. Ekkert umræddra félaga hafi átt bankareikninga utan Evrópu. Áfram sé unnið að því að aðstoða skiptastjóra við uppgjör félagsins, þar með talið að afla frekari gagna.

Björgólfsfeðgar segja að þessi viðskipti hafi átt sér stað á árunum 2004 til 2007 þegar fjárhagur Samson og fyrrum eigenda hafi verið afar sterkur. Á þeim tíma hefði verið hægt að greiða út verulegar fjárhæðir í arð til fyrrum eigenda, margfaldar þær fjárhæðir sem hér um ræði. Það hafi ekki verið gert og fjármunir félagsins þess í stað verið nýttir til nýrra fjárfestinga sem ætlað var að styrkja félagið.

Björgólfsfeðgar segja jafnframt að í ársreikningum Samsonar sé gerð grein fyrir þessum viðskiptum og engu haldið undan. Ársreikningarnir séu endurskoðaðir og hafi um langt skeið verið opinberir og birtir í Kauphöll Íslands.

Enginn fótur sé því fyrir ályktunum um að fjármunum Samson hafi verið komið undan í skjól eða runnið til eigenda félagsins. Í öllum tilfellum hafi verið um að ræða fjárfestingar eða viðskiptalán vegna nýrra fjárfestingaverkefna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×