Erlent

Pyntingastjóri í 19 ára fangelsi

Óli Tynes skrifar
Duch hlýðir á dómsorðið.
Duch hlýðir á dómsorðið.

Helsti pyntingastjóri Rauðu kmeranna í Kambódíu hefur verið dæmdur í 19 ára fangelsi fyrir hlut sinn í dauða að minnsta kosti 14000 manna í hinu illræmda Tuol Sleng fangelsi.

Maðurinn sem þekktur er undir nafninu Duch var fangelsisstjóri þar meðan Rauðu kmerarnir stjórnuðu landinu fyrir þrem áratugum.

Duch var dæmdur fyrir morð, pyntingar, nauðganir, ómanneskjulegar gjörðir og glæpi gegn mannkyninu.

Dómurinn hljóðaði upp á 35 ár. Frá honum voru hinsvegar dregin 11 ár sem hann hefur þegar setið í fangelsi og fimm til viðbótar fyrir samvinnu við dómstólinn. Í dóminum var tekið fram að Duch hefði sýnt mikla iðrun og tekið kristna trú.

Aðstandendur fórnarlamba hans hafa lýst mikilli reiði vegna þessarar niðurstöðu. Þeir vildu láta dæma hinn 67 ára pyntingastjóra í lífstíðar fangelsi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×