Viðskipti innlent

Bílasala tók við sér á árinu

Bílasala hefur aðeins tekið við sér á þessu ári, miðað við botninn sem sala á nýjum fólksbílum náði á síðasta ári. Á fimm árum hefur salan hins vegar hrunið um 86%.

Rösklega 3200 nýir fólksbílar hafa verið seldir á þessu ári, sem er öllu meira en í fyrra þegar aðeins seldust ríflega 2400 nýir fólksbílar. Þessar tölur eru þó órafjarri sölutölum fyrir hrun þegar um og yfir 20 þúsund nýir bílar voru fluttir til landsins. Hápunkti náði bílasala á Íslandi fyrir sléttum fimm árum, en árið 2005 voru nærri 22.650 nýir bílar skráðir á landinu. Frá þeim hátindi bílasölu hefur markaðurinn hrunið um 86%.

Tölur þessa árs gefa heldur ekki beinlínis mynd af því hversu marga nýja bíla almenningur hefur keypt á árinu - því obbinn af sölunni virðist vera til bílaleigufyrirtækja. Talið er að hátt í sex af hverjum tíu nýjum fólksbílum á árinu hafi verið seldir til slíkra fyrirtækja.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×