Erlent

Bætist á boðflennulista Hvíta hússins

Salahi hjónin heilsa upp á Barack Obama Bandaríkjaforseta.
Salahi hjónin heilsa upp á Barack Obama Bandaríkjaforseta.

Nú er komið í ljós að hjónin sem smygluðu sér inn í veislu í Hvíta húsinu á dögunum voru ekki einu boðflennurnar það kvöldið. Það vakti heimsathygli þegar það uppgötvaðist að hjónin Tereq og Michele Salahi höfðu mætt í veislu í Hvíta húsinu sem haldin var Indverska forsætisráðherranum til heiðurs. Hjónin völsuðu framhjá her öryggisvarða og tóku í spaðann á Barack Obama forseta og heilsuðu upp á Indverska forsætisráðherrann.

Nokkrum dögum síðar komst málið í hámæli og voru þrír öryggisverðir forsetans sendir í frí í kjölfarið. Við nánari rannsókn á málinu hefur hins vegar komið í ljós að hjónin voru ekki einu boðflennurnar því bandaríkjamaður sem sagður er búa í Washington var einnig á meðal gesta án þess að hafa fengið boðskortið í pósti. Bandaríska blaðið Washington Post segir að um sé að ræða mann sem sérhæfi sig í því að skipuleggja veislur og svo virðist vera sem hann hafi komist inn í Hvíta húsið í för með nokkrum indverskum viðskiptamönnum.

Ekki er ljóst á þessari stundu hvort hann hafi komist eins nálægt forsetanum og Salahi hjónin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×