Viðskipti innlent

„Við þurfum að komast inn í hausinn á þér“

Starfsmaður Íslandsbanka hefur lagt fram kvörtun til Héraðsdóms Reykjavíkur vegna harðræðis Slitastjórnar Glitnis og sérfræðinga á hennar vegum við skýrslutöku.

Eins og fréttastofa greindi frá á mánudag kvartaði Íslandsbanki til Fjármálaeftirlitsins vegna óeðlilegra afskipta og hótana slitastjórnar Glitnis í garð starfsmanna Íslandsbanka vegna yfirheyrslna sem áttu sér stað í yfirheyrsluherbergi þrotabús Glitnis í Sóltúni.

Nú hefur viðskiptastjóri hjá Íslandsbanka lagt fram formlega kvörtun til Héraðsdóms Reykjavíkur vegna framkomu slitastjórnarinnar. Hann lýsir í bréfinu fundi sem hann átti með Richard Abbey hjá Kroll í október í fyrra. Abbey hafi reynt að gera lítið úr störfum hans fyrir bankann og gert hann tortryggilegan.

Tilefni kvörtunarinnar er svo skýrslutaka í júlí, en í henni hafi verið mætt af hálfu slitastjórnarinnar Steinunn Guðbjartsdóttir og áðurnefndur Abbey, auk bandarísks lögmanns, Michael C. Miller. Viðskiptastjórinn fékk spurningar eins og með hverjum hann væri í liði. Þá hafi fulltrúar slitastjórnar orðið pirraðir yfir svörum hans og í samráði við lögmann sinn ákvað maðurinn að slíta fundinum. Þá fékk hann viðbrögð sem hann segir ekki hægt að túlka öðruvísi en sem beinar hótanir.

Bandaríski lögmaðurinn mun hafa sagt við hann: „You are hiding something. We need to dig into you." Eða: „Þú leynir einhverju. Við þurfum

að komast inn í hausinn á þér."

Í beinu framhaldi af því mun Richard Abbey hafa sagt að það væru tvær stefnur í gangi og það væri alltaf hægt að bæta fólki inn í þær. Steinunn Guðbjartsdóttir á þá að hafa bætt við eitthvað á þessa leið: „Það er ekkert markmið okkar í sjálfu sér að eyðileggja sem flestar fjölskyldur."

Í lok bréfsins kvartar maðurinn undan framferði Steinunnar og gerir kröfu um að slitastjórnarmönnum verði vikið úr starfi og aðrir skipaðir í þeirra stað.

Tvö hinna stefndu sem slitastjórn Glitnis hefur höfðað mál gegn í New York eru hluthafar í 365 miðlum sem eiga og reka fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×