Viðskipti innlent

Fleiri kröfur í Kaupþing en Glitni og LÍ

Unnið við skráningu krafna. Búist er við að tæplega þrjátíu þúsund kröfum verði lýst í bú Kaupþings. Unnið verður á vöktum við skráningu krafnanna.
Fréttablaðið/Valli
Unnið við skráningu krafna. Búist er við að tæplega þrjátíu þúsund kröfum verði lýst í bú Kaupþings. Unnið verður á vöktum við skráningu krafnanna. Fréttablaðið/Valli

Áætlað er að á bilinu 27 þúsund til 29 þúsund kröfur hafi borist í þrotabú Kaupþings. Um þrjátíu manns hafa unnið við móttöku og skráningu krafna síðustu vikur og hefur hópurinn nú þegar lokið við að skrá 23 þúsund kröfur í bú Kaupþings. Frestur til að gera kröfu í bú bankans rann út 30. desember síðastliðinn.

Magnið er í takt við væntingar, að sögn Ólafs Garðarssonar lögmanns sem situr í slitastjórn bankans. „Við áttum von á allt að þrjátíu þúsund kröfum í bankann. Flestar kröfurnar koma frá Þýskalandi, sparifjáreigendum sem gera vaxtakröfur vegna innstæðna sem þegar hafa verið greiddar út," segir hann.

Hæsta skráða krafan fram til þessa hljóðar upp á um tvö hundruð milljarða króna en sú lægsta nemur tæpum tveimur evrum, jafnvirði tvö hundruð króna. Flestar kröfurnar eru frá Þýskalandi en heildarkröfur eru frá 111 löndum, samkvæmt tilkynningu frá skilanefnd Kaupþings. Ekkert hefur verið gefið út um heildarupphæð krafna.

Eins og áður hefur komið fram er ekki útilokað að kröfuhafahópi Kaupþings muni svipa til kröfuhafahóps Glitnis en þar voru fyrirferðarmiklir bandarískir fjárfestingarsjóðir sem höfðu keypt skuldabréf gömlu bankanna eftir hrun þeirra.

Kröfuhafaskrá Kaupþings verður birt í heild sinni á vefsvæði fyrir kröfuhafa 22. janúar næstkomandi og er gert ráð fyrir að unnið verði á vöktum til að ljúka skráningunni en mikið magn fylgiskjala getur fylgt hverri kröfu.

Viku eftir birtingu kröfuskrár verður fundað með kröfuhöfum þar sem farið verður yfir skrána og afstöðu slitastjórnar til lýstra krafna. jonab@frettabladid.is




Tengdar fréttir

Hæsta krafan í Kaupþing nemur 200 milljörðum

Hæsta krafan í Kaupþing nemur 200 milljörðum kr. en sú lægsta nemur 250 kr. Kröfur í Kaupþing hafa borist frá 111 löndum en flestar þeirra koma frá Þýskalandi.

Seinagangur eitt þúsund kröfuhafa

Slitastjórn Kaupþings hafa borist rúmlega eitt þúsund kröfur eftir að sex mánaða frestur til að lýsa kröfum í bankann rann út fyrir tæpri viku. Þrátt fyrir rúman tíma til að senda inn kröfurnar eru mörg bréfanna dagsett á milli jóla og nýárs. Leiða má líkum af því að slæmt veður víða í Evrópu undanfarnar vikur hafi haft áhrif á að umrædd bréf bárust ekki fyrr en fresturinn var runnin út. Samkvæmt heimildum fréttastofu er að megninu til ekki um að ræða háar kröfur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×