Viðskipti innlent

Skuldabréf Landsbankans halda áfram að hækka

Skuldabréf Landsbankans halda áfram að hækka í verði og eru nú komin í 6,5% af nafnverði bréfanna. Þetta kemur fram á vefsíðunni Keldan. Hafa bréfin því hækkað um yfir 50% síðan forseti Íslands tilkynnti um að Icesave málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Eins og fram kom í frétt hér á síðunni hækkuðu bréfin um tæp 40% í verði skömmu eftir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands tilkynnti um ákvörðun sína í Icesave málinu í síðustu viku.

Verðið á skuldabréfunum hefur verið skráð á vefsíðuna Keldan frá því að sú síða opnaði fyrir rúmlega tveimur mánuðum. Verðið á skuldabréfum Landsbankans hefur legið í kringum 4% af nafnverði bréfanna allan þann tíma. Eftir ákvörðun forsetans hækkuðu bréfin upp í 5,5% af nafnverði eða um tæp 40%. Nú hafa þau hækkað um prósentustig í viðbót.

Markaðurinn með þessi skuldabréf er óskilvirkur og ógagnsær en þeir sem kaupa þau eru að veðja á að eitthvað fáist úr þrotabúi bankans umfram forgangskröfur. Verðið á bréfunum er lítt skiljanlegt í ljósi þess að margoft hefur komið fram að ekki fáist upp í forgangkröfurnar í búið.

Til samanburðar má nefna að verð skuldabréfa í Glitni, Kaupþingi, Straumi og Sparisjóðabankanum eru einnig skráð á Keldan. Þau verð eru hinsvegar í samræmi við opinberar tölur um væntanlegar heimtur úr þorabúum þessara banka. Sem dæmi má nefna að Kaupþingsbréfin eru nú á 23,5% af nafnverði og Straumsbréfin eru á 25% af nafnverði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×