Viðskipti innlent

Rukkaður um 4500 krónur vegna 24 krónu skuldar

Karen Kjartansdóttir skrifar
Ríkissjóður rukkar atvinnulausan mann um fjögurþúsund og fimmhunduð krónur fyrir að draga að greiða tuttugu og fjögurra króna skuld í fimmtán daga.

Davíð Pálsson segist alla tíð hafa reynt að standa í skilum. Að vísu hefi þrengst í búi hjá honum eftir að hann missti vinnuna en hann geri sitt besta. Til að muna örugglega eftir öllu hefur hann notað greiðsluþjónustu í bankanum. Hann varð því nokkuð undrandi þegar hann leit inn á heimabankann sinn og sá að hann skuldaði ríkinu tuttugu og fjórar krónur.

Hann varð þó enn þá meira undrandi þegar hann komst að því að á fimmtán dögum höfðu þessar krónur vaxið um 19500 prósent og skuldin því orðin fjögur þúsund og fimmhunduð krónur.

Davíð segist vilja ríkissjóði allt það besta og sér þyki leiðinlegt að greiðsluþjónustunni hafi yfirsést þessar krónur og þakkar sínu sæla fyrir að hafa ekki dregið það lengur að líta inn á heimabankann sinn.

Hann hafi enn ekki fengið skýringar á þessari miklu hækkun en ætlar að leita þeirra í bankanum eftir helgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×