Viðskipti innlent

Viðar Þorkelsson ráðinn forstjóri VALITOR

Stjórn VALITOR hefur gengið frá ráðningu Viðars Þorkelssonar í stöðu forstjóra félagsins.

Í tilkynningu segir að Viðar Þorkelsson hafi að undanförnu gegnt stöðu forstjóra Reita fasteignafélags. Hann hefur víðtæka stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu jafnt úr fjármálageiranum sem og rekstrarfélögum.

Hann var um árabil svæðisstjóri og útibússtjóri Landsbanka Íslands og hefur gegnt stjórnunarstöðum hjá rekstrarfélögum eins og Vodafone og 365. Viðar lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Peter F. Drucker Management Center í Bandaríkjunum 1993. Hann er giftur Sigríði Svövu Þorsteinsdóttur og eiga þau 3 börn.

„Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að taka við stjórn VALITOR, sem er öflugt fjármálafyrirtæki með sterkan hóp starfsfólks og stjórnenda. Mín bíður það hlutverk að halda áfram að þróa starfsemi og stefnu félagsins í samstarfi við stjórn og starfsfólk og byggja á þeim góða grunni sem fyrir er. Það er í senn spennandi og krefjandi verkefni," Viðar Þorkelsson, nýr forstjóri VALITOR í tilkynningunni.

Stjórn VALITOR þakkar Höskuldi H. Ólafssyni fráfarandi forstjóra mjög góð störf í þágu félagsins og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×