Viðskipti innlent

Tekur 20 ár að ná skuldum Íslands á viðráðanlegt stig

Samkvæmt áliti svissneska viðskiptaskólans IMD International mun það taka Ísland lengur en næstu 20 árin að ná opinberum skuldum sínum niður á viðráðanlegt stig. Þar er Ísland í hópi þjóða á borð við Ítalíu, Portúgal, Belgíu, Bandaríkjanna og Grikklands.

Fjallað er um málið á Bloomberg fréttaveitunni. Þar segir að viðráðanlegt stig sé skilgreint þannig að opinberar skuldir séu undir 60% af landsframleiðslu hvers lands.

Þótt Ísland þurfi sumsé að bíða meir en 20 ár eftir því að ná þessu stigi að mati IMD er sá tími þó stuttur miðað við Japan. Samkvæmt frásögn Bloomberg glíma Japanir nú við „skuldabölvun" og það mun taka þá næstu 70 árin að ná opinberum skuldum sínum niður í viðráðanlegt stig.

Samkvæmt IMD munu opinberar skuldir Íslands lækka niður fyrir 60% af landsframleiðslu fyrst árið 2032. Fyrir Japan gerist þetta ekki fyrr en árið 2084.

Áliti IMD er hluti af skýrslu þeirra um samkeppnishæfni þjóða sem kynnt verður síðar í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×