Viðskipti innlent

Íslendingar í sumarfríi erlendis hagnast á krónugenginu

Íslendingar sem ferðast erlendis í sumarfríum sínum í ár hafa hagnast töluvert á því að gengi krónunnar hefur styrkst frá áramótum.

Íslendingar eru nú í auknum mæli farnir að eyða sumarfríium sínum erlendis að nýju en verulega dró úr þeim ferðum eftir bankahrunið haustið 2008 þegar gengi krónunnar hrundi.

Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka er fjallað um málið en þar segir að mismunandi er eftir því hvaða áfangastaður er fyrir valinu hversu mikið kaupmátturinn á erlendri grundu hefur aukist.

Einna mestu munar til að mynda í gengi evrunnar en krónan hefur á einu ári styrkst um 14% gagnvart þeirri mynt. Margir sumarleyfisstaðir Íslendinga eru á evrusvæðinu. Nú kostar evran 156 kr. en kostaði fyrir ári síðan 180 kr. Rjómaísinn sem kostar 3 evrur í Barcelona kostar Íslendinginn nú 72 krónum minna en fyrir ári síðan.

Við þetta má bæta að gengi dönsku krónunnar fylgir gengi evrunnar. Danska krónan stóð í rúmlega 24 kr. í fyrrasumar en gengið er 21 kr. í dag. Því borga Íslendingar nú um 180 krónum minna fyrir hálfan líter af öli í Kaupmannahöfn en þeir gerðu fyrir ár miðað við að meðalverð á ölinu sé 40 krónur danskar.

Að lokum má nefna að fá sér eina með öllu í dönskum pulsuvagni kostar 23 danskar kr. Pulsan er því 70 krónum ódýrari fyrir Íslending en hún var í fyrrasumar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×