Viðskipti innlent

Krafan á evrubréfum ríkissjóðs lækkar

Ávöxtunarkrafan á evrubréfum ríkissjóðs sem eru á gjalddaga í árslok á næsta ári hefur lækkað töluvert síðan að tilkynnt var um kaup á bréfum úr þessum skuldabréfaflokki í síðustu viku.

Fjallað er um málið í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa en í síðustu viku tilkynnti Seðlabankinn að ríkissjóður Íslands væri reiðubúinn að kaupa evruskuldabréf útgefnum af ríkissjóði fyrir allt að 300 milljónir evra. Bréfin eru á gjalddaga árin 2011 og 2012.

„Krafa á flokknum sem er á gjalddaga 2011 lækkaði við tilkynninguna og stendur í rétt tæpum 7% og hefur lækkað úr rúmum 9% síðastliðna 3 mánuði. Bréfið ber 3,75% vexti og því mun ríkissjóður að öllum líkindum gera góð kaup í formi affalla af bréfunum," segir í Markaðsfréttunum.

„Einnig mun ríkissjóður fá 3,75% vexti af bréfinu sem er mun hærra en Seðlabankinn fær á innistæður í evrum. Um mjög jákvætt skref er að ræða og mun það leiða til aukins trausts á íslenskt efnahagslíf."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×