Viðskipti innlent

Sigurvegari Gulleggsins í viðræðum við stóra framleiðendur

Lúðvík Geirsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar fagnar með fulltrúum ReMake Electric í Kveikjunni ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Lúðvík Geirsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar fagnar með fulltrúum ReMake Electric í Kveikjunni ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.
Fulltrúar fyrirtækisins ReMake Electric, sem sigraði í nýsköpunarkeppninni Gullegginu 2010, standa í viðræðum við stærstu framleiðendur heims á sviði raföryggis um framleiðslu á nýrri tegund af rafmagnsöryggi sem fyrirtækið hefur þróað.

Í tilkynningu segir að varan sem gengur undir nafninu Rafskynjarinn eykur öryggi og lækkar kostnað með því að sýna stöðu rafmagnsálags og gefur frá sér hljóðviðvörun við yfirálag líkt og reykskynjari.

„Þetta eru nokkrir aðilar sem við erum í viðræðum við og við höfum fengið mjög góð viðbrögð, svo við erum bjartsýnir á framhaldið. Nú síðast fyrir nokkrum dögum funduðum við með stórum aðila í Þýskalandi," segir Hilmir Ingi Jónsson framkvæmdastjóri ReMake Electric.

Í tilefni af góðu gengi ReMake Electric í Gullegginu veitti bæjarstjóri Hafnarfjarðar Lúðvík Geirsson fyrirtækinu viðurkenningu í vikunni, en ReMake Electric er með aðstöðu á frumkvöðlasetrinu Kveikjunni í Hafnarfirði sem rekið er af Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Hafnarfjarðarbæ, Garðabæ og Sveitarfélaginu Álftanesi.

Metþátttaka var í nýsköpunarkeppninni Gullegginu og bárust 295 hugmyndir í keppnina en það er Innovit sem stendur að henni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×