Lífið

Norðmenn báðu um Eurobandið til Oslóar

Friðrik Ómar og Regína Ósk eru ekki gleymd og grafin í hugum Eurovision-aðdáenda því þau hita upp fyrir sjálft úrslitakvöldið á skemmtistaðnum Latter í miðborg Osló þar sem keppnin fer fram.
Friðrik Ómar og Regína Ósk eru ekki gleymd og grafin í hugum Eurovision-aðdáenda því þau hita upp fyrir sjálft úrslitakvöldið á skemmtistaðnum Latter í miðborg Osló þar sem keppnin fer fram. Fréttablaðið/Daníel

Eurobandið, þau Friðrik Ómar og Regína Ósk, hita upp fyrir sjálft úrslitakvöldið í Eurovision á hinum vinsæla næturklúbbi Latter í miðborg Oslóar. „Mads Rogde, sem hefur verið farastjóri norska Eurovision-hópsins undanfarin ár, sendi okkur tölvupóst og vildi fá okkur til að koma fram," segir Friðrik Ómar en hann lýsir Rogde sem norsku útgáfunni af Jónatan Garðarssyni enda hefur Jónatan verið í svipuðu hlutverki hjá íslenska tónlistarfólkinu nánast frá upphafi.

Friðrik upplýsir að hann og Regína verði einu erlendu flytjendurnir þetta kvöld en meðal annarra Eurovision-stjarna má nefna Mariu Haukas sem var fulltrúi Norðmanna 2008 og Jostein Hasselgard en hann keppti fyrir hönd Noregs árið 2003. Söngvarinn segir Eurobandið fá fjölda fyrirspurna á ári hverju en tvíeykið hefur sérhæft sig í flutningi á Eurovision-slögurum.

„Við erum búin að leggja mikið á okkur við að búa til gott efni og það er bara gaman að við skulum enn vera Eurovision-aðdáendum ofarlega í huga tveimur árum eftir að við tókum þátt."

Eins og Fréttablaðið greindi frá fyrir skemmstu hyggst Friðrik flytja af landi brott og setjast að í Svíþjóð. Söngvarinn ætlar að vinna þar í tónlistinni sinni en Friðrik hyggst ekki bregðast íslenskum aðdáendum sínum heldur vera á landinu yfir sjómannadagshelgina og verslunamannahelgina. -fgg








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.