Viðskipti innlent

Bjóða 10 milljarða í leikfangarisann Hamleys

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Fjárfestingarsjóður frá Mið-austurlöndum hefur gert tilboð í breska leikfangarisann Hamleys upp á tæpa tíu milljarða króna. Hamleys er í meirihlutaeigu skilanefndar Landsbankans og er vonast til að hægt verði að ganga frá kaupunum í upphafi næsta árs.

Í febrúar í fyrra gekk gamli Landsbankinn að veðum vegna dótturfélaga Baugs í Bretlandi, meðal annars í leikfangarisanum Hamleys. Skilanefndin fer nú með um 65% hlut í félaginu.

Á þeim tíma sem liðinn er frá yfirtökunni hefur hagur Hamleys vænkast mjög undir stjórn Guðjóns Karls Reynissonar. Salan tók kipp upp á við, verslunum hefur verið fjölgað, ný markaðssvæði könnuð og í ár skilaði reksturinn hagnaði í fyrsta sinn í sex ár.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur skilanefnd Landsbankans fengið tilboð í Hamleys sem nemur rúmlega 55 milljónum sterlingspunda eða um 10 milljörðum íslenskra króna fyrir félagið í heild.

Væntanlegur kaupandi er fjárfestingarsjóður frá Miðausturlöndum og munu samningaviðræður vera komnar langt á veg. Vonast er til að hægt verði að ganga frá samningum í upphafi næsta árs.

Að auki hafa fjölmargir sýnt verslunarkeðjunni Iceland Foods áhuga, sem einnig er í meirihlutaeigu skilanefndarinnar. Meðal áhugasamra kaupenda er fjárfestingarsjóðurinn Global Banking Corporation í Barein. Söluandvirði Iceland er að lágmarki rúmlega 270 milljarðar íslenskra króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×