Viðskipti innlent

Færðu veðsett 101 Hótel á eigin nöfn

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Veðbönd upp á rúmlega milljarð króna hvíla á 101 Hótelinu á horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu. Eigendur þess, Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir, hafa fært eignina á eigin nöfn.

101 Hótel, sem stendur að horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu, var áður skráð á fyrirtækið IP Studium en hótelið er nú í jafnri eigu þeirra Jóns Ásgeirs og Ingibjargar Pálmadóttur og eru þau hvor um sig með 50 prósent hlut, að því er fram kemur í veðbandayfirliti fasteignarinnar.

Ingibjörg Pálmadóttir vildi ekki tjá sig um þessa breytingu á eignarhaldi fasteignarinnar í samtali við fréttastofu. Þá fengust þær upplýsingar hjá skilanefnd Landsbankans, sem á stærstu áhvílandi veðkröfuna á fasteigninni, að nefndinni væri ekki kunnugt um þessa breytingu á eignarhaldi.

Áhvílandi á fasteigninni núna er tryggingarbréf frá Landsbankanum upp á 7 milljónir dollara. Tilurð tryggingabréfsins má rekja til þess að Jón Ásgeir veðsetti lúxusíbúðir sínar í New York án vitneskju skilanefndar Landsbankans en bankinn fjármagnaði kaupin á þeim árið 2007. Því gerði skilanefndin þá kröfu í júní á síðasta ári að tryggingarbréfið yrði fært á hótelið til að bæta tryggingastöðu sína. Auk þess hvílir á hótelinu veðskuldabréf upp á 350 milljónir frá Arion banka. Það eru því veðbönd alls upp á rúmlega 1,3 milljarða króna sem hvíla á fasteigninni.

Fasteignin er sögufræg en húsið var byggt í sjálfboðavinnu af verkafólki árið 1935 og hýsti lengi vel starfsemi Alþýðuflokksins. Húsið var endurinnréttað og hannað af Ingibjörgu Pálmadóttur en hún hlaut viðurkenningu Þróunarfélags Reykjavíkurborgar fyrir framlags sitt til uppbyggingar í miðborg Reykjavíkur með hönnun hótelsins árið 2003, en hótelið þótti skemmtileg viðbót í hótelflóru borgarinnar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×