Viðskipti innlent

Styðja hugmyndir Jóns Bjarnasonar um auknar aflaheimildir

Samtök íslenskra fiskimanna lýsa yfir eindregnum stuðningi við hugmyndir Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra um að auka aflaheimildir í þorski, ýsu, ufsa og fleiri stofnum og úthluta þeim á jafnréttisgrunni, gegn gjaldi í ríkissjóð.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum þar sem segir að það sé fagnaðarefni að nú hylli í að ríkisstjórn Íslands „stígi enn eitt skrefið frá kerfi mismununar og mannréttindabrota með því að gera þegnum landsins jafnt undir höfði við úthlutun aflaheimilda."

Þá hvetja samtökin stjórnvöld til þess að flýta fyrir aðgerðum þessum svo sem kostur er á. „Sú furðustaða er uppi víða um land í dag að skip komast ekki til veiða vegna mikillrar fiskgengdar. Þörf er því á að bregðast hratt við þeim vanda með því að auka framboð aflaheimilda."

Samtökin segja að í þeirri stöðu sem ríkissjóður og íslenskt þjóðarbú er í dag sé ekki vanþörf á auknum tekjum. „Jafnframt hvetja Samtök íslenskra fiskimanna útgerðir og samtök sjómanna til að standa vörð um kjarasamninga sjómanna þar sem kveðið er á um að sjómenn skuli ekki taka þátt í kostnaði vegna leigu aflaheimilda."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×