Viðskipti innlent

Krónan þarf að vera stöðug í áratug

Gylfi Magnússon viðskiptaráðhera segir að kjör á óverðtryggðu láni yrðu að vera afar góð, betri en nú bjóðast, til að hann myndi nýta sér það við húsnæðiskaup.
Fréttablaðið/Anton
Gylfi Magnússon viðskiptaráðhera segir að kjör á óverðtryggðu láni yrðu að vera afar góð, betri en nú bjóðast, til að hann myndi nýta sér það við húsnæðiskaup. Fréttablaðið/Anton
„Ég sé ekki fyrir mér að hægt sé að afnema verðtrygginguna á skömmum tíma, en það er hins vegar hægt að vinna kerfis­bundið að breytingum sem sjálfkrafa draga úr vægi hennar,“ sagði Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, á opnum fundi viðskiptanefndar Alþingis í gær.

Leiðin til að losna við verðtrygginguna sagði Gylfi vera að ná betri tökum á stjórn peningamála, stöðugt gengi krónu og stöðugra verðlag. Þegar slíkt ástand hefði varað í áratug eða svo mætti fara að gera sér vonir um að krónan hefði áunnið sér nægt traust til að fólk og fjárfestar vildu festa fé sitt í krónum til lengri tíma. Á hinn bóginn sagði hann svo að velta mætti upp möguleikanum á því að skipta hér um mynt, sem myndi breyta stöðunni talsvert.

„Það má eiginlega líta svo á að verðtryggingin sé að hluta til sjúkdómseinkenni og að hluta til aðferð til að draga úr áhrifum sjúkdómsins. En sjúkdómurinn er þá að hluta til það óstöðuga verðlag og óstöðuga gengi sem fylgt hefur krónunni í meira en 70 ár. Það er skýringin á því að við erum eina landið í okkar heimshluta með víðtæka verðtryggingu á fjárskuldbindingum til langs tíma,“ sagði Gylfi. - óká





Fleiri fréttir

Sjá meira


×