Viðskipti innlent

Eignarhald erlendis ekki gefið upp

Mörður Árnason. Í annarri tilraun fékk þingmaðurinn svör um eignarhald Íslendinga í erlendum sjávarútvegi.
fréttablaðið/valli
Mörður Árnason. Í annarri tilraun fékk þingmaðurinn svör um eignarhald Íslendinga í erlendum sjávarútvegi. fréttablaðið/valli

Eignir Íslendinga í erlendum sjávarútvegsfyrirtækjum námu rúmum 873 milljörðum króna í lok síðasta árs, samkvæmt svari Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, við fyrirspurn Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar.

Tölurnar eru fengnar frá Seðlabanka Íslands. Samkvæmt svarinu er Seðlabanki Íslands bundinn þagnarskyldu og getur því ekki gefið upplýsingar um hvaða fyrirtæki þetta eru, hvar þau starfa eða hver hlutdeild Íslendinga í fyrirtækjunum er, né heldur hvenær Íslendingarnir eignuðust fyrst hlut í þessum fyrirtækjum eða hvert virði heildarhlutar þeirra er.

Mörður hafði í október leitað til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins með sömu fyrirspurn. Skriflegt svar ráðherrans Jóns Bjarnasonar var að ráðuneytið hefði engar upplýsingar um efni fyrirspurnarinnar og bæri ekki samkvæmt lögum að afla þeirra. Þess vegna væri ekki hægt að svara fyrirspurninni.

Mörður gerir þagnarskyldu Seðlabankans að umtalsefni á bloggi sínu í gær og spyr hvort það geti verið að eigendur fjárins séu þeir sömu sem eigi íslensku sjávarútvegsfyrirtækin, en skuldsetning þeirra hefur verið mikið til umræðu. Þær skuldir eru metnar 500-600 milljarðar króna og þær megi þá greiða upp fyrir erlendar eignir, sé um sama fólkið að ræða. - shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×