Viðskipti innlent

Stefna að opnu og gagnsæju ferli

Bankinn hefur þegar tekið ákvörðun um að skrá Haga á markað.
Bankinn hefur þegar tekið ákvörðun um að skrá Haga á markað. Fréttablaðið/Pjetur
Arion banki leggur á það mat í hverju máli fyrir sig hvaða kostur sé heppilegastur þegar koma á í verð eignarhlutum í fyrirtækjum sem bankinn hefur þurft að taka yfir í þeim tilgangi að tryggja fullnustu eigna.

Í viðtali við Markaðinn í vikunni taldi Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, orka tvímælis algeng viðhorf innan bankanna um að fremur bæri að selja fyrir­tæki fjárfestum en að skrá þau strax á markað. Arion banki hefur þegar ákveðið að skrá eitt fyrirtæki í Kauphöll Íslands, verslunarfyrirtækið Haga.

Berghildur Erla Bernharðsdóttir, upplýsingafulltrúi bankans, segir ákveðnar verklagsreglur hafðar til hliðsjónar þegar kemur að sölu yfirtekinna fyrirtækja. Stefnt sé að því að selja eignarhluta í fyrirtækjum eins fljótt og hagkvæmt er talið. Þá skuli stefnt að opnu og gagnsæju söluferli og jafnræði meðal fjárfesta. Hún bendir þó á að í einhverjum tilvikum kunni hagsmunir fyrirtækis og bankans að kalla á lokað útboð eða annars konar fyrirkomulag.

„Til dæmis vegna ákvæða hluthafasamkomulags eða samþykkta um forkaupsrétt.“ Þá segir hún ákvörðun um sölu á eignarhluta fjármálafyrirtækis og aðferð við sölu vera rökstudda og skráða. - óká





Fleiri fréttir

Sjá meira


×